<$BlogRSDURL$>

mánudagur, mars 29, 2004

Það fór um mig hrollur eftir sprengingarnar í Madríd og ég samdi kvæði:


Heimstyrjöldin þriðja

Magnúðugu máttarvöld!
Myrkri sveipað heimsins kvöld
Móðir jörð og drottinn dýr!
Drunga heimsins sálin flýr.

Endalokin eldur kyndir
endurgjöldum vorar syndir
Blíðan vind á vanga finn
vorsins ilm í hinsta sinn

Heyri fugla fagran söng,
er forðum heyrði dægrin löng
í húmi nætur hljóðna þeir
himnaljós ei verður meir

Hugleikinn mér heimsins endir,
hvert mitt sálartetur lendir?
Sopið drjúgt úr lífsins lindum
lausn mér veittu frá þeim syndum

Veit mér töfra Tímans-gyðja,
trúlaus maður er að biðja
Ungur drengur -Dauðans-meyja!-
dæmdur saklaus til að deyja

Ljúfur góður viltu vaka
vænta örlög ragnaraka?
Engu eirir jörðin köld
eftir mikla Heimstyrjöld!

Jæja... er nú ekki búin að vera dugleg að tjá mig hér á veraldarvefnum að undanförnu, enda var ég nettengingarlaus um tíma og fannst sem klippt hefði verið á lífæðina! Var ekki hálf manneskja, og hef þurft allan þennan tíma til að jafna mig á áfallinu. Passaði mig á að vera alltaf online, líka þegar ég var í vinnunni eða sofandi, til að vinna upp glataðan tíma. But I am back og verð nú að fara að upplifa eitthvað skemmtilegt til að geta deilt því með alþjóð, þar sem ég er viss um að alþjóð fylgist spennt með brallinu í okkur systrum. Annars hefur lítið á daga mína drifið, sem talist getur til tíðinda. Fór á bekkjarmót þann 23. Mars og við uppgötvuðum okkur til mikillar skelfingar að þann dag áttum við akkúrat 15 ára fermingarafmæli. Einn reikningssnillingurinn í hópnum fann það út að við værum búin að lifa lengur eftir ferminguna en við vorum búin að lifa á fermingunni!!Skelfilegt! En það var mjög gaman að sjá hvað hefur orðið úr liðinu, sumir komu á óvart, aðrið líka, en með því að hafa ekkert breyst.
Annars var ég að gera verkefni í skólanum um daginn sem bar yfirskriftina: "Verður lífshamingjan keypt með peningum?" Hvað tel ég að felist í lífshamingjunni? - Kemur ferðamálum kannski ekki ýkja mikið við, en allavega hefur þetta verkefni verið að gerjast í hausnum á mér síðustu vikuna, og ég komst að því, mér til mikils hugarangur, að ég veit ekki hvað hamingjan er! Og enn síður hvar hún fæst. Kominn tími til að reyna að komast að því, því það er svo sannarlega eitthvað sem ég þarf að verða mér út um, sem fyrst! Má engan tíma missa; er að fara að leyta að hamingjunni. Heyrumst síðar!mánudagur, mars 22, 2004

Þegar ég var aðeins yngri... ekki mikið samt... áttu strákar að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að vera eftirsóknarverðir:
1. Dökkhærður
2. 183,5-191,7 cm á hæð.
3. Æfa körfubolta og vera góður í körfu auk þess að standast þær kröfur að vera nokkuð góður í öllum eðlilegum íþrótagreinum t.d. handbolta, fótbolta, frjálsum, sundi og fl.
4. Greindur og fá ágætis einkunnir. Þó ekki bókaormur.
5. Fyndinn en ekki á kosnað annarra.
6. Vera með flottan brjóstkassa og líta vel út ber að ofan.
7. Elska mig skilyrðislaust og ekki horfa á aðrar stelpur.
8. Sætur
9. Horfa á NBA.
10. Ekki horfa á formúluna.
11. Má ekki vera sporðdreki og helst ekki fiskur
12. Kostur að vera tvíburi eða vatnsberi
13. Gera allt fyrir mig og ég allt fyrir hann
14. Kunna að gera við bíla og eiga bíl og skutla mér þangað sem ég vil fara.
15. Engin bringuhár takk en ekki raka þau af.
16. Enginn perri.
17. Vera besti vinur minn og hægt að segja honum allt.
18. Óhræddur við að vera rómantískur og dýrka ástarljóðin sem ég sem handa honum
19. grannur en stæltur... já og bara allt annað.

Ég tók þennan lista til endurskoðunar og nú þarf sá hin sami að uppfylla 3 skilyrði:
1. Gagnkvæm virðing
2. gagnkvæm hrifning
3. Má ekki vera sjálfsstæðismaður!!

Gangi mér vel í leitinni að hinum eina rétta:D
This page is powered by Blogger. Isn't yours?