<$BlogRSDURL$>

miðvikudagur, maí 11, 2005

Mig dreymir atvinnuumsóknir. Um daginn dreymdi mig að ég hefði saumað mér kjól úr þeim umsóknum einstaklinga sem ég hef þurft að neita um vinnu. Mig dreymdi líka fyrir stuttu að ég hefði verið í sturtu og úr sturtuhausnum streymdu atvinnuumsóknir í tonnatali. Eitt skiptið dreymdi mig að myndirnar í ferilskránum fóru að tala við mig og spyrja út í launakjör og önnur praktísk atriði. Ég held að ég sé að missa vitið og að eina ráðið þessa helgi sé að koma sér eins langt úr borginni og hægt er. Verst að það er ekki komið útileguveður.



mánudagur, maí 02, 2005

Aldeilis ágæt helgi. Tókst að hitta eina af mínum uppáhaldsfjölskyldum - Kúbufjölskylduna. Það er hópur ungmenna sem eiga það sameiginlegt að hafa lagt leið sína til Kúbu árið 1999 og skemmt sér framar öllum vonum. Þau hittast svo reglulega yfir Mojito og borða saman kræsingar sem matreiðslumeistarar fjölskyldunnar laða á ótrúlegan hátt fram. Því miður komst ég ekki með til Kúbu þar sem ég var fjarri góðu gamni (reyndar ekki í slæmu gamni sjálf) sem Au-Pair í London en var ættleidd á sínum tíma inn í fjölskylduna. Meðal umræðuefnis var áætluð "kúbuferð" til Brussel næsta vor til Ellu. Hingað til hafa Kúbuferðir ekki verið lengri en upp í sumarbústað en markmiðið er auðvitað að komast alla leið til Kúbu og þá ætla ég með :-) Daginn eftir dró ég fjölskylduna mína með á Snæfellsnes þar sem við lentum í snjóbyl.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?