<$BlogRSDURL$>

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Jæja. Þá er Bush búinn að ákveða að samþykkja bann við því að samkynhneigðir gangi í hjónaband. Hvaða hugsanleg rök getur maðurinn haft fyrir sér í þessu önnur en hreinir fordómar? Það eru meira að segja fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar til að koma í veg fyrir þetta. Ég er brjáluð!! Bandaríkjamenn hafa alltaf trúað á þessu fleygu orð "All men are created equal" sem ég held að standi í stjórnarskránni meira að segja. Hvað þýðingu leggur Bush í þessi orð? Eru þeir sem eru kristnir og taka Biblíuna bókstaflega betra fólk en allt annað? Það á að standa einhvers staðar í blessaðri biblíunni að samkynhneigð sé röng. Af hverju var "Guð" þá að skapa samkynhneigt fólk? Erum við ekki öll börn "Guðs"? Erum við ekki öll systkini? Eru þá ekki öll hjónabönd sifjaspell samkvæmt Biblíunni... nei... þá tekur túlkunin við: "blóðsystkin" mega ekki giftast. Af hverju er þá ekki hægt að túlka samkynhneigðina í Biblíunni á einhvern annan hátt? Þar stendur ekki í boðorðunum "Þú skalt ekki giftast manneskju af sama kyni og þú". Fyrir mér er þetta hreint og klárt misrétti og ekkert annað. Bæði fyrir þá sem eru samkynhneigðir og fyrir þá sem trúa ekki öllu sem biblían segir. Ég ákvað að skrifa bréf til Bush fyrir hönd starfsmanns hans sem er greinilega ekki þörf fyrir:

Kæri Herra Bush:

Vil spyrja þig í þessu bréfi,
þokaðist aldrei að þér efi?
sofnaði sálin er hjartað dó?
Sýndist þér aldrei komið nóg?

Erfitt að skilja stríðsins fúss
skilur þú það herra Bush?
Mögulega skýra mál þitt
mönnunum sem gáfu líf sitt?

Herra Bush, sem hernað vildi
Hvar eru þín „kristnu“ gildi?
Því heilög hugsjón og valdaþrá
hljóta víst að stangast á.

-Þjóð þína til sigurs leiða
„þú skalt ekki mann deyða“
Mikil græðgi, góssið fá
girnast það sem annar á.-

Hvert er hið illa öxulveldi?
Hið er saklausan lýðinn felldi?
Kæri Bush ég segi upp störfum
sinni bráðum annars þörfum.

Þú hlustar aldrei, Horfin! Máð!
hunsar ávallt öll mín ráð.
Kíkjum karlinn hvernig fer,
í kosningum í nóvember

Sjaldgefinn sigur reynist hér
sé minnihluti að baki þér
Gerist varla næst, ég giska,
-Góða nótt, Þín Samviska.-

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Var að skoða bloggið hjá Þórunni Grétu um daginn, þar sem hún æsti sig heilmikið útaf fréttaflutningum sjónvarpsins. Henni láu stanslausar fréttir um lýtaaðgerðir þyngst á brjósti, og ég get tekið undir það hjá henni. Hvert er heimurinn eiginlega að fara?
En fyrst við erum að tala um fréttaflutning sjónvarpsstöðvanna, þá get ég nú ekki orða bundist. Ég var að horfa á sjónvarpsfréttirnar eitt kvöldið og var þar sagt frá líkfundi í höfninni á Neskaupsstað. Ekki voru mörg orð höfð um þennan hryllilega atburð, nokkrar staðreyndir þuldar upp, sem ekki voru margar en næsta frétt á eftir var af inntökuprófi fyrir flugfreyjuna. Sú frétt yfirgnæfði allar hinar, hvað margir tækju þátt þetta árið, og var viðtal tekið við fjölda fólks, og myndir frá próftökustaðnum. Aðaláherslan var lögð á unga stúlku sem fór í viðskiptafræði í Háskóla Íslands á meðan hún beið eftir því að ná tilsettum aldri fyrir flugfreyjuna. Þótti fréttastjórum það merkilegra en að lík hefði fundist sem allt benti til að væri af myrtum manni. Er það fréttnæmt?? Svo fréttnæmt að allt annað í þjóðfélaginu, líka "coldblooded" morð, virðist vera aukaatriði?? Jah, maður spyr sig stundum...þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Ég var að skemmta mér heilmikið í nótt. Ég var í ferð í Írak á vegum Jay Leno sem var í svuntu. Við vorum að skoða heilsuböðin sem Ibsen skrifaði um í Þjóðníðingi. En ég var í öðrum erindagerðum. Inn á baði heima á Egilsstöðum var padda og stór padda var að elta hana. Ég bjargaði henni frá þessum örlögum og kom henni upp heimili í brauðkassa inn á baði sem hægt er að opna og loka. Mamma var ekkert rosalega sátt en þær verptu stórum eggjum og ég færði mömmu þau áður en þau frjóvguðust til átu. Pöddurnar urðu fleiri og fleiri og eignuðust börn og ég heimsótti þær oft og spjallaði við þær. Þær áttu mjög bágt en voru mér mjög þakklátar. Einn daginn komu 2 risastórar rauðar pöddur sem voru samfastar. Þær voru álíka stórar og litlir hundar. Ég var skíthrædd en Magga systir mín kom upp stórri músagildru og náði þeirri minni þannig. Síðan tók hún stórt spjót og ræðist á þá stærri og drap hana þannig. Pöddurnar voru okkur svo þakklátar en sögðu mér að fara til Íraks... ég var þar í björgunaraðgerðum. Ég bjargaði heilum plastpoka af ánamöðkum og kom með heim. Mamma var ekki glöð enda gaf ég henni egg sem innihélt unga. En það var komið að pöddunum að fara. Margar hverjar höfðu aldrei séð heiminn og tími til kominn að læra að standa á eigin fótum og bjarga sér. Ég kvaddi þær með söknuði og þær héldu sína leið.mánudagur, febrúar 16, 2004

Gærdagurinn var algjör snilld. Okkur systrum var boðið í kaffi til Ernu Kristínar, að skoða nýju íbúðina. Erna og Garðar, Gassi litli og Gréta voru þar. Það var mjög gaman, og það var kökusukk, eins og ég hef ekki lent í lengi. ÆÐI. Íbúðin var fín og við gátum klæmst aðeins, ekki mikið samt, af því að frænka Ernu var þarna líka, dóttir Sigfúsar. Maður þarf víst að hegða sér vel innan um ókunnugt fólk. Ég verð alveg veik af löngun í eigin íbúð þegar ég fer í heimsóknir, þannig að það er kannski bara gott að ég fari svona sjaldan af bæ. Um kvöldið fór ég í leikhúsið með Lindu og Ingunni. Við fórum á Erling, sem er saga af geðsjúkum bræðrum og hvernig þeir læra að fóta sig aftur í lífinu og verða sjálfstæðir. Það var alltaf verið að reyna að fá þá til að fara út á meðal fólks, og þá sagði Erling einhverntímann: Afhverju alltaf að vera að fara út þegar við erum komnir með þessa fínu íbúð? Guð, hvað ég skildi hann!
Um þessar mundir er ég líka umvafin konum með fjölskylduvandamál. Það er eitthvað mikið að gerast hjá öllum, virðist vera, sem ég þekki. Það er, þeim sem ég þekki sem eru komnar með börn. Ókey, ekki öllum, en mörgum. Ég, sem á hvorki börn, né mann, né lítur út fyrir að það sé eitthvað að fara að breytast, er orðinn öxl fyrir mæður með vandamál til að gráta á! Ég, sem var farin að örvænta að ég myndi enda uppi einsömul, er allt í einu hætt að vera örvæntingarfull. Er eiginlega bara fegin. Ég hef bara systur mína til að annast, og það er ekkert vesen á henni. Hún sér eiginlega um sig sjálf. Við sjáum eiginlega um hvor aðra. Þannig, að ég er orðin sátt við þann hluta lífs míns, sem ég hélt á tímabili að vantaði.laugardagur, febrúar 14, 2004

Laugardagskvöld og ég sit ein fyrir framan tölvuna mína með hvítvínsglas. Linda bauð mér í heimsókn, en ég gat ekki hugsað mér að fara, var lika að pæla að kíkja í Breiðholtið til Krissu sem ég hef ekki séð í óratíma, en nennti því ekki heldur... Vildi frekar vera heima, elda pasta og slaka á... enda búið að vera strembið í vinnunni... hmmm. Hvað er málið? Er hætt að nenna að fara útúr húsi, hvað þá á djammið, Inga Mæja heldur að skemmtarinn í okkur sé dáinn. Hún er að upplifa svipaða sögu. Ætli það sé rétt? Og afhverju var mér ekki sagt frá því tímanlega, svo ég hefði getað kvatt hann með þeirri virðingu sem hann átti skilið, taka eitt feitt djamm með honum í lokin, svona í kveðjuskini? Svo hefði ég haldið minningarathöfn og grafið hann. Fengið tækifæri til að kveðja hann og segja honum hvað ég hafi skemmt mér vel með honum meðan hann var og hét og hvað mér þótti vænt um hann! En nei.. hann þarf að láta sig hverfa hægt og rólega, og einn daginn vaknar maður við að hann er farinn, algjörlaga að óvörum. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, ég sakna hans nú stundum, sérstaklega þegar ég er svona sorgleg ein heima hjá mér. Samt er ég ekki einmana, mér leiðist ekki og ég kann að láta mér líða vel, en lífið var miklu skemmtilegra og líflegra meðan hann var enn við lýði.
Þannig að ég vil nota tækifærið og kveðja Skemmtarann í mér. Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, öll fylleríin og uppátækin sem við tókum þátt í í gamla daga! Ég mun alltaf minnast þín með hlýju og brosi á vör! Vona að þú lifir áfram og finnir þér einhvern ungling til að láta líða jafn vel og mér leið með þér!!föstudagur, febrúar 13, 2004

Ég lenti í einkennilegri "lífsreynslu" í nótt. Ég er í nammibanni (nema á laugardögum) og mig dreymdi um sælgæti í alla nótt. Ég var í útlöndum í risastórri sælgætisbúð og var að kaupa bland í poka. Þar voru stórir hlaupsnákar eins og mér finnst svo góðir, alls konar lakkrís, súkkulaði af öllum gerðum og stærðum og cadbury's konfekt sem er það besta í heimi. Ég slefaði á afgreiðsluborðið þetta var svo gómsætt en konan var svo lengi að afgreiða mig. Loksins fékk ég pokann og ég tók strax einn cadbury molann og tók utanaf honum pappírinn og var að fara að setja hann upp í mig... þá kom Magga inn í herbergi og vakti mig til að fá bílinn... mig langaði að gráta.mánudagur, febrúar 09, 2004

Ástæðan fyrir því að ég hef lítið getað lært í dag... Ég hreinlega get ekki kíkt í ljóðabækur án þess að fara að semja sjálf og hér er afrakstur dagsins.
Heitir Leikur að eldi:

Leikur að eldi, leikur að þér
ljúf er hefndin, komið að mér
eld-rauð af brygðum og bræði
bál-vond af öskrum og mæði.

Ég syrgi sjaldan öfugugga.
Sá ég út um eld-húsglugga
víta-verða heita kossa
vítiseld af ótryggð blossa

Leikur að eldi, leikur hjá mér
líflítið bálið í hjarta þér
heiftin horfin, sálin auða
hefni mín með eldi og dauða

-gættu vitna, vertu málvör-
Viðstaddur að eigin bálför
satan sjálfur holdi klæddur
sýnist vera logandi hræddur

Leikur að eldi, leikur að þér
líflaus er askan í hendi mér
því af sárum svikum illur geldur
-slokknaður okkar ástareldur-Í dag er ég svo heppin að það viðrar afskaplega vel til að sitja heima með dregið fyrir gluggann, kveikt á nokkrum lömpum og hjúfra sig undir teppi með skólabækurnar. Ég á einmitt helling eftir að læra, og gæti ekki kosið mér betra veður til þeirrar iðkunar. Rigningin lemur gluggann minn, úti er hávaðarok og frost, snjórinn sem enn liggur á götunni er hægt og sígandi að breytast í svell. Þannig að allt byrjaði þetta afskaplega vel, ég kom heim úr skólanum um hádegi, fékk mér skyr að borða og skar mér svo niður peru og fékk mér sóda vatn úr sóda strím tækinu mínu, því nú erum við systur í átaki, reyna að breyta mataræðinu og borða hollustu:Þ
En þar sem ég er nú einu sinni í ferðamálafræði, hætti ég fljótlega að geta haldið einbeitingunni yfir bókunum. Viðfangsefni dagsins eru ferðalög, langanir fólks til að ferðast og skoða eitthvað nýtt. Hverjum exótískum staðnum eftir annann var lýst, spenningnum í maganum sem maður finnur til er maður kemur inn á flugvöllinn og sér allar flugvélarnar á vellinum, bíðandi eftir því að geta hafið vængi sína til flugs....
Og hér sit ég, með teppið yfir mér, hlusta á rigninguna og horfi á dagblöð þeytast yfir garðinn minn í vindinum, og er að reyna að lesa um fjarlæga, fallega og hlýja staði!!
Er skrýtið þó að maður eigi stundum erfitt með að einbeita sér við námið??sunnudagur, febrúar 08, 2004

Það var hugmynd litlu systur minnar að gera fara að blogga saman. Það hljómaði ekkert svo illa þegar hún varpaði þessari tillögu sinni fram, en þá höfðum við tekið okkur viku frí frá sjónvarpsdagskránni og vorum staddar í London, og nóg að gera og BARA gaman. Mér fannst við hafa um nóg að skrifa og fannst hugmyndin skemmtileg. Við gætum komið frábærum húmor okkar á framfæri og spjallað um allt sem á daga okkar drífur.... En nú erum við komnar heim, og daglegt amstur hefur tekið við. Ég hef ekkert að segja, því eftir að þessari frábæru meningarreisu okkar lauk hef ég ekki gert rassgat. Jú, ég lýg því, um seinustu helgi afþakkaði ég gott boð Sveins Guðjónssonar að koma í fjallaferð á Langjökul, í glampandi sól og yndislegu veðri. ÞAÐ hef ég afrekað síðan; þóttist vera of upptekin við lærdóm til að fara í svona LANGA ferð! Og óska ég okkur systrum svo til hamingju með þetta tækniafrek að fara að blogga, og tilvonandi lesendum... ykkur óska ég mikillar skemmtunar;)Margt er skrítið í kýrhausnum og sömu sögu má segja um Eggertsgötu 20. Þar búa systurnar syndugu og sinna námi sínu eins og eðlilegt fólk. Við fyrstu sýn virðast þær nokkuð heilbrigðar og eðlilegar en þegar betur er að gáð má sjá að ekki er allt sem sýnist... Sú eldri stundar nám við ferðamálafræði til þess að setja Austurland á kortið og ná þangað til sín myndarlegum karlmönnum og sú yngri stundar nám við íslensku og stjórnmálafræði til þess helst að ná heimsyfirráðum... annars er skólinn helst dægrastytting frá magnaðri dagskrá Ríkissjónvarpsins.Loksins loksins... syndajátningarnar komnar á netið:)This page is powered by Blogger. Isn't yours?